Í skírninni þökkum við Guði fyrir skírnarbarnið og biðjum Guð að vera nálægt barninu í öllu lífi þess. Í skírninni er barnið helgað Jesú Kristi og boðið velkomið í samfélag trúaðra. Í skírnarathöfninni sameinast viðstaddir í bæn fyrir barninu og framtíð þess. Jesús Kristur mælti fyrir um skírnina eins og fram kemur í eftirfarandi texta sem er oft nefndur skírnarskipunin:

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og hins heilaga anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda verandar. (Matt. 28. 18-20).

Skírnarathöfnin fer þannig fram að prestur leiðir stundina en gjarnan koma fjölskyldumeðlimir að henni á einn eða annan hátt. Það gera þau til dæmis með því að fara saman með bæn, lesa ritningarlestur eða í söng.